Hvað er tæling?

Tæling er algeng aðferð hjá þeim sem misnota börn og unglinga. Tæling getur líka verið notuð gegn ungu fólki og fullorðnum einstaklingum í viðkvæmri stöðu. Sá sem beitir tælingunni reynir að vinna traust þolandans og þvinga hann til að samþykkja ofbeldið. Tæling getur átt sér stað bæði í persónu eða á netinu.

Það er oftast fjölskyldumeðlimur eða einhver sem þolandinn þekkir sem er tælarinn, til dæmis þjálfari eða kennari. Sá sem beitir tælingu er oft viðkunnalegur, vinalegur og hjálpsamur.

Það gæti verið tæling ef einhver eldri og valdameiri manneskja:

  • Veitir þér mikla athygli og hrós.
  • Deilir með þér dýpstu leyndarmálum sínum.
  • Gefur þér gjafir eða peninga.
  • Bendir á það sem er sameiginlegt með ykkur.
  • Sýnir þér mikla samúð eða samkennd.
  • Segjast hafa tilfinningar gagnvart þér.
  • Spyr þig um persónulegar upplýsingar eins og heimilisfang, í hvaða skóla þú ert eða hvar þú hengur oftast.
  • Ýtir á þig eða skipar þér að gera hluti, oft með því að vekja með þér sektarkennd.
  • Biður þig um að hittast einsömul án þess að segja neinum, jafnvel á afskekktum stað.

Tælingarferlið

  1. Val á fórnarlambi. Fólk sem beitir tælingu fylgist oft með mögulegum fórnarlömbum og velur sér það byggt á hversu auðvelt sé að nálgast það og hversu varnarlaust það er.
  2. Aðgangur og einangrun. Tælarinn reynir að einangra manneskjuna, andlega eða líkamlega, frá þeim sem vernda hana og sækir oft í stöður þar sem auðvelt er að hafa samskipti við unglinga.
  3. Vinna traust og halda leyndarmál. Tælarinn reynir að vinna traust manneskjunnar með gjöfum, athygli, deila með henni leyndarmálum og fleira sem lætur henni líða eins og þau eigi í ástríku sambandi sem þarf að halda leyndu.
  4. Snerting og tal um kynferðisleg málefni. Tælarinn byrjar oft að snerta manneskjuna á það sem virðist saklausan hátt, eins og að knúsa, gamni-slást og kitla. Það færist svo yfir í kynferðislegri snertingu, eins og nudd og að fara í sturtu saman. Tælarinn sýnir stundum fórnarlambinu klám eða ræðir kynferðisleg málefni við það, til að kynna hugmyndina um kynferðislegt samneyti.
  5. Tilraun til að láta hegðunina virðast eðlilega. Þegar ekki er um mikinn aldursmun að ræða getur verið erfitt að þekkja tælingu. Það eru hættumerki ef á að halda sambandinu leyndu, ef sá sem er eldri er með óhóflega mikil áhrif eða stjórnun eða er sífellt að ýta á mörk þess sem er yngri.

Hvernig útskýra krakkar tælingu?

Tæling á netinu

Þegar fullorðinn einstaklingur setur sig í samband við barn á netinu kallast það tæling. Oft býr sá fullorðni til gervi-prófíl og þykist vera barn eða unglingur til að vingast við barnið og vinna traust þess. Þetta getur verið fyrsta skrefið í áttina að stafrænu eða kynferðislegu ofbeldi.

Það er mikilvægt að tala við börn og unglinga um áhættuna við netið og að tala við annað fólk þar og kenna þeim ráð ef þau lenda í áreiti á netinu.

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi

Ingvar

Ingvar er 13 ára og æfir körfubolta. Nýi þjálfarinn hans er hress og unglegur þótt hann sé kominn yfir þrítugt. Þjálfarinn býður stundum strákunum heim til sín eftir æfingu að horfa á bíómyndir um körfubolta. Eitt skiptið mætir Ingvar bara einn og þá hrósar þjálfarinn honum og játar að Ingvar sé uppáhaldið hans.

Eftir það fara þeir að hittast einir og verða góðir vinir án þess að nokkur viti af því. Leyndarmálið veldur því að Ingvar fjarlægist vini sína og fjölskyldu. Þjálfarinn gefur honum föt og áfengi og nuddar hann oft eftir æfingar. Í eitt skiptið horfa þeir á klám saman og það endar í kynmökum. Ingvari finnst þetta spennandi en eitthvað er samt að naga hann. Hann langar að segja einhverjum frá en þorir því ekki núna.

Er þetta ofbeldi? Veldu svar:

Aðstoð í boði

Aðstoð í boði

Sjúkt spjall

Nafnlaust netspjall fyrir ungmenni til að ræða áhyggjur af samböndum, samskiptum eða ofbeldi.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins ef þú vilt tala við einhvern. Það er opið allan sólarhringinn. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Barnavernd

Markmið barnaverndar er að styðja foreldra til að hugsa um börnin sín. Ef þú heldur að barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu ættirðu að láta barnavernd vita.

Eltihrellir

Ef einhver endurtekið situr um þig, eltir, hótar þér eða fylgist með þér er sá eltihrellir og kallast þessi hegðun umsáturseinelti.

Manneskja sem situr inni í búri

Stafrænt ofbeldi

Stafrænt ofbeldi, eða netofbeldi, er það þegar einhver notar tæki eða tækni til að fylgjast með þér, ógna þér, áreita þig eða niðurlægja þig.

Manneskja horfir á símann sinn sem sýnir ólæsileg skilaboð. Hún snýr baki í okkur svo við sjáum á símann í höndunum á henni. Mikið liðað hár sveiflast í vindinum.