Neyðarstig - eldgos hafið á Reykjanesi

Viðbragðsaðilar eru þeir sem Neyðarlínan boðar til að veita aðstoð á staðnum.

Tilvísunaraðilar eru þeir sem Neyðarlínan vísar innhringjendum á þegar ekki þarf að senda aðstoð til þeirra.

Faglegir samstarfsaðilar hjálpa Neyðarlínunni annars vegar að veita bestu neyðaraðstoð sem möguleg er og hins vegar reiða sig á upplýsingar frá Neyðarlínunni í sínum störfum.

Tæknilegir samstarfsaðilar þróa og reka þá tæknilegu innviði sem Neyðarlínan stólar á í vaktstöðinni og út um allt land og mið.

Viðbragðsaðilar

Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra

Verkefni almannavarnadeildar snúast um undirbúning almannavarnakerfisins og almennings til að bregðast við náttúruvá, slysum, eða atburðum sem geta ógnað almannaheill og viðbrögðum almannavarnadeildar við þeim atburðum.

Landhelgisgæsla Íslands

Berist neyðarbeiðni af sjó til 112 er þeim beint til Vaktstöðvar siglinga (VSS) sem annast móttöku og miðlun tilkynninga um óhöpp á sjó. Hjá VSS starfar fólk með sérþekkingu á skipulagi leitar og björgunar á sjó. Faglegur stjórnandi VSS er Landhelgisgæslan

Rauði Krossinn

Allar Rauða Kross deildir félagsins mynda neyðarvarnanet Rauða Kross Íslands. Þær eru 51 talsins og eru staðsettar úr um allt land. Þegar stórir atburðir eiga sér stað setja sjálfboðaliðar Rauða Krossins upp fjöldahjálparstöðvar eða sinna öðrum mikilvægum verkefnum í þágu almannavarna í landinu.

Slysavarnarfélagið Landsbjörg

Starfsemi Landsbjargar miðar að því að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum. Í þeim tilgangi er öflugur hópur sjálfboðaliða til taks ef út af bregður, á nóttu sem degi, allt árið um kring. Neyðarverðir boða sjálfboðaliða Landsbjargar út í aðgerðir.

Slökkvilið landsins

Slökkvilið gegna lykilhlutverki í viðbragði þegar slys eða bruni verður. Neyðarverðir boða slökkviliðsmenn og bráðaliða á staðinn eftir eðli aðgerða og samhæfa þar með viðbragð þeirra 38 slökkviliða sem starfrækt eru á landinu.

Lögreglan

Neyðarverðir taka við símtölum og verkefnum til lögreglu gegnum 112. Þeir greina verkefni og miðla upplýsingum áfram til Fjarskiptamiðstöðvar lögreglu, sem tryggir að verkefnum sé sinnt af viðkomandi lögregluumdæmi.

Barnaverndarnefndir

Markmið Barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Neyðarverðir taka við tilkynningum til barnaverndarnefnda í samræmi við umboð og verklag hverrar nefndar.

Vegagerðin

Vegfarendur geta, hvar sem er á landinu hringt í neyðarnúmerið 112 til að tilkynna og koma áfram ábendingum, til dæmis ef vegir lokast vegna slysa, aurskriða, snjóflóða eða annars sem heftir akstur um þjóðvegi landsins.

Tilvísunaraðilar

Hjálparsími Rauða Krossins

Þú getur hringt eða sent skilaboð á 1717 ef þú vilt tala við einhvern. Hægt er að hafa samband vegna alls þess sem þér liggur á hjarta. Þú getur fengið sálrænan stuðning, ráðgjöf, hlustun og upplýsingar. Bæði síminn og netspjallið er ókeypis.

Læknavaktin

Margir hringja inn bæði vegna almennra veikinda vegna þess að ekki næst í heimilislækni og vegna neyðar. Eitt af hlutverkum neyðarvarðar er að greina þarna á milli. Samtölum vegna almennra veikinda og smáslysa utan dagvinnutíma er beint til Læknavaktarinnar

Heilsugæslan

Margir hringja inn bæði vegna almennra veikinda vegna þess að ekki næst í heimilislækni og vegna neyðar. Eitt af hlutverkum neyðarvarðar er að greina þarna á milli. Samtölum vegna almennra veikinda og smáslysa á dagvinnutíma er beint til Heilsugæslunnar, þar á meðal í gegnum vefinn Heilsuveru.

Vinnueftirlitið

Hlutverk Vinnueftirlitsins er að tryggja að öll komi heil heim úr vinnu. Við vitum að slysin gera boð á undan sér og það er hægt að hanna burt hætturnar.

Heilbrigðiseftirlitin

Öll sveitarfélög starfrækja heilbrigðiseftirlit sem hafa eftirlit með húsnæði, aðbúnaði og hollustuháttum í fyrirtækjum þar sem almenningur leitar þjónustu.

Eitrunarmiðstöð

Eitrunarmiðstöð veitir upplýsingar um eiturefni og ráðgjöf um viðbrögð og meðferð þegar eitranir verða. Eitrunarmiðstöð er með aðsetur á bráðamóttöku Landsspítala í Fossvogi.

Úrræði

Neyðarlínan hefur listað öll úrræði sem eru til staðar fyrir fólk sem upplifir ofbeldi og vísar fólki áfram til viðeigandi úrræða til að fá lausn undan ofbeldinu.

Faglegir samstarfsaðilar

Landspítali - Háskólasjúkrahús

LSH (Landspítali Háskólasjúkrahús) er læknisfræðilegur umsjónaraðili og ráðgjafi Neyðarlínunnar um heilbrigðisþjónustu. LSH fer yfir og þróar verklagsreglur Neyðarlínunnar sem varða svörun og viðbrögð við slysum, sjúkdómum og öðru sem snertir bráða heilbrigðisþjónustu.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Hlutverk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er að tryggja virkt eftirlit með gæðum og öryggi í mannvirkjagerð og réttleika skráningar fasteigna. Einnig að sinna greiningum og áreiðanlegu fasteignamati. 

Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Markmið Rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA) er að finna þá orsakaþætti sem leiddu til banaslyss eða alvarlegs samgönguslyss til að bæta öryggi og koma í veg fyrir samskonar slys. Þegar samgönguslys verður sem fellur undir verksvið RNSA tilkynnir 112 nefndinni að slys eða atvik hafi orðið.

Tæknilegir samstarfsaðilar

Samsýn

Meðal mikilvægustu hjálpargagna neyðarvarða er landupplýsingakerfið SiteWatch sem Samsýn hefur hannað og þróað í samstarfi við Neyðarlínuna. SiteWatch og svörunarbúnaður Response112 tengjast gagnagrunni 112 og mynda saman öflugt hjálpartæki sem nýtist í öllum störfum neyðavarða.

Trackwell

Flotaeftirlitskerfið Trackwell VMS er notað af Vaktstöð siglinga til að fylgjast með íslenska flotanum.