
Barnavernd
Markmið barnaverndarnefnda er að styðja foreldra til að hugsa um börnin sín. Ef þú heldur að barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu ættirðu að láta barnavernd vita.

Börn eiga rétt á vernd og umönnun
Öll undir 18 ára teljast börn, einnig ófædd börn. Ef þú heldur að barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu ættirðu að láta barnavernd vita. Til dæmis ætti að tilkynna vanrækslu, slæma framkomu foreldra gagnvart barni, áreitni eða ofbeldi annarra gagnvart barni og áhættuhegðun barna. Ekki treysta á að aðrir láti vita. Það er líka mikilvægt að tilkynna aftur ef ástandið breytist ekki.
Markmið barnaverndar er fyrst og fremst að koma börnum og fjölskyldum til aðstoðar. Í barnaverndarlögunum segir að aðstoða eigi börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu. Það er gert með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og vernda einstaka börn þegar það á við.
Það er lögð áhersla á samvinnu við foreldra og börn og velferð barnsins er alltaf í forgangi. Börn eru höfð í samráði, eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfir.
Að tilkynna
Þú getur tilkynnt til barnaverndarnefnda með því að hringja í 112 eða nota netspjall 112. Einnig er hægt er að hringja í þá barnaverndarnefnd þar sem barn býr. Fyrir börn í Reykjavík er hægt að senda tilkynningu á vefsíðu Barnaverndar Reykjavíkur. Sumar nefndir annarra sveitarfélaga eru líka með rafrænar tilkynningar og ábendingar á vefsíðum sínum.
Þú þarft að segja til nafns þegar þú tilkynnir en getur alltaf óskað eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefndinni.
Börn geta líka haft samband sjálf. Það er allt í lagi að tilkynna þótt maður sé ekki alveg viss. Mundu að börn eiga alltaf að njóta vafans.
Símanúmer
Losaðu þig við áhyggjurnar og komdu þeim í farveg. Tilkynntu um mál sem varða börn til 112.
Reynslusaga Sóleyjar
Ofbeldi á heimilinu hefur alvarlegar afleiðingar fyrir börn þótt þau verði ekki fyrir ofbeldinu sjálf. Sóley er 13 ára stelpa sem ólst upp við ofbeldi af hendi pabba síns. Hún hefur nú flutt á annað heimili með mömmu sinni og bróður þar sem þau lifa nýju lífi í öryggi.
Áhrif ofbeldis á börn
Ofbeldi hefur neikvæð áhrif á börn. Ofbeldi gegn börnum getur verið alls konar. Ofbeldið getur beinst beint gegn barninu eða óbeint, eins og þegar barn verður vitni að ofbeldi á heimili sínu.


