Neyðarstig - eldgos hafið á Reykjanesi

Hvað þýðir að vera eltihrellir?

Eltihrellir (e. stalker) hótar, eltir, fylgist með eða ofsækir á einhvern hátt aðra manneskju. Eltihrellir situr um aðra til þess að stjórna og ógna.

Umsáturseinelti

Í dag er farið að nota orðið umsáturseinelti um það sem einnig er kallað að vera eltihrellir. Umsáturseinelti er þegar einhver áreitir þig endurtekið með óumbeðinni athygli eða samskiptum. Hegðunin er oft linnulaus, hættir ekki þótt þú biðjir um það og getur látið þér finnast eins og þú getir ekki losnað undan henni.

Dæmi um umsáturseinelti er:

  • Endurteknir tölvupóstar eða skilaboð á samfélagsmiðlum.
  • Endurtekin símtöl.
  • Manneskjan eltir þig til og frá heimili eða vinnu.
  • Miðar skildir eftir heima hjá þér, í vinnu eða bílnum þínum.
  • Óumbeðin blóm eða gjafir eru send heim til þín.
  • Samfélagsmiðlar eru notaðir til að fylgjast með þér, hrella þig eða ógna, eða ónáða þig með óvelkominni hegðun.
  • Tæki eins og GPS eða AirTags eru notuð til að fylgjast með hvar þú ert.
  • Manneskjan mætir óboðin heim til þín, á vinnustaðinn eða í skólann.
  • Manneskjan mætir á sömu staði og þú þegar það er engin ástæða fyrir hana að vera þar.

Hegðunin byrjar stundum á góðum nótum en verður agressívari og jafnvel ofbeldisfull með tímanum. Stundum er umsáturseinelti hluti af ofbeldi í nánu sambandi. Eins og með annað ofbeldi snýst umsáturseinelti um stjórnun. Umsátrið hræðir þig svo að þú breytir þinni rútínu og hegðun og skapar óöryggi.

Hverjir eru eltihrellar?

Eltihrellar geta verið ókunnugir eða fólk sem þú þekkir varla. Þeir eru oft líka einhver sem þú þekkir vel, til dæmis:

  • Makar.
  • Fyrrverandi makar.
  • Umönnunaraðilar.
  • Foreldrar, forsjáraðilar eða aðrir fjölskyldumeðlimir.
  • Uppkomin börn.
  • Annað fólk sem þú býrð með eða sérð oft.

Fáðu hjálp

Enginn hefur rétt á því að ógna þér og stjórna með óvelkominni athygli. Ef þú eða einhver sem þú þekkir er setið um getur þú fengið hjálp hjá Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri eða Sigurhæðum á Selfossi.

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi

Bylgja

Bylgja er nýflutt að heiman í litla en mjög kósí íbúð stutt frá háskólanum. Í fyrstu finnst henni leigusalinn vingjarnlegur og hjálpsamur en þegar hann fer að banka upp á oft í viku til að athuga eitthvað með íbúðina verður það fljótt uppáþrengjandi. Hún biður hann um að koma ekki óvænt en hann gerir það samt. Hann hringir líka stundum í hana til að spjalla. Hana langar að sleppa því að svara en óttast að símtalið sé eitthvað varðandi íbúðina.

Eitt kvöldið sýnist henni leigusalinn sitja reykjandi í bíl hinumegin við götuna. Þegar hún sér hann fyrir utan skólann sinn þorir hún ekki heim heldur fer til vinkonu sinnar.

Er þetta ofbeldi? Veldu svar:

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Bjarmahlíð á Akureyri

Bjarmahlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Sigurhæðir á Selfossi

Sigurhæðir eru þjónusta á Suðurlandi við konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Þar færðu samhæfða ráðgjöf, stuðning og meðferð á þínum forsendum.

Tæling

Þegar eldri manneskja tælir ungling eða viðkvæma manneskju til kynferðislegra athafna með blekkingu eða gjöfum kallast það tæling. Tæling er ofbeldi og er ólögleg.

Trúarofbeldi

Þegar einhver notar andlega vinnu eða trúarbrögð til að hræða þig, særa þig eða stjórna þér kallast það trúarofbeldi.