Neyðarstig - eldgos hafið á Reykjanesi

Fáðu hjálp

Ef þú hefur áhyggjur af hegðun þinni og vilt breyta henni, hafðu samband við fagaðila hjá Taktu skrefið. Fullur trúnaður ríkir. Á vefsíðunni þeirra má finna mikið af fræðsluefni og sjálfshjálparefni.

Með því að vera að lesa þetta hefur þú tekið skref í rétta átt. Við getum aðstoðað þig við að skilja bæði ástæður og afleiðingar af óviðeigandi kynhegðun á netinu og bent á úrræði sem hjálpa til við að grípa inn í. Efnið er byggt á vefsíðu Stop it now, sem eru bresk samtök til varnar kynferðisbrotum gegn börnum.

  • Mögulega hefur þú ekki gert neitt ólöglegt enn þá en hefur áhyggjur af hegðun þinni á netinu.
  • Mögulega hefur þú hætt að skoða kynferðislegar myndir eða hætt kynferðislegu netspjalli við börn eða ungmenni.
  • Mögulega ert þú til rannsóknar hjá lögreglunni vegna kynferðisbrots eða kannski veit enginn um nethegðun þína.

Að stíga fyrstu skrefin er oft erfitt og það er eðlilegt að stundum muni þér ganga vel en stundum reynist það erfiðara. Þú getur fengið stuðning til að gera þessar breytingar. Fólk getur og hefur hætt ólöglegri hegðun á netinu. Þú getur það líka og allar leiðbeiningar miða að því að hjálpa þér eftir bestu getu.

Lagalegar staðreyndir

Þú þarft að skilja lögin til að þú vitir hvað er rétt eða rangt, jafnvel þótt þú sért ósammála. Handtaka hefur margs konar afleiðingar, ekki bara fangelsisdóm.

Ólöglegar myndir af börnum

Hér er átt við kynferðislegar myndir af einhverjum undir 18 ára aldri. Þar má nefna:

  • Myndir af nöktum börnum, teknar af öðrum eða þeim sjálfum.
  • Myndir af börnum í kynferðislegum stellingum.
  • Myndir af börnum í kynferðislegum athöfnum.

Þessi skilgreining nær til mynda, myndbanda eða gervimynda. Allt er þetta ólöglegt.

Það er ekkert „grátt svæði“

Margir sem hafa stundað óviðeigandi kynhegðun á netinu halda að það sé „grátt svæði” á milli þess sem er löglegt og ólöglegt. Það er ekkert grátt svæði.

  • Myndir af börnum sem ekki eru kynferðislegar
    Ef þú skoðar mynd af barni til að örvast kynferðislega, hvort sem barnið er nakið, hálfnakið eða í fötum, þá er það óviðeigandi. Lögreglunni gæti fundist það grunsamlegt að vera með margar myndir af börnum þó að þau séu í fötum.
  • Myndir af nöktum börnum á netinu
    Ef þú skoðar mynd af barni til að örvast kynferðislega þá er það ólöglegt.
  • Óvissa um aldur
    Ekki halda áfram að skoða ef þú ert ekki viss um hvort myndefnið sé af fullorðnum einstaklingi eða barni. Ekki halda áfram samskiptum ef þú ert ekki viss um hvort viðkomandi sé fullorðinn eða barn. Það er ekkert grátt svæði. Ef það er einhver óvissa, hættu þá. Lögin eru mjög skýr.
  • Aldursmunur
    Ef þú ert í kynferðislegum samskiptum við einhvern sem er miklu yngri en þú er valdaójafnvægið þannig að ekki er hægt að taka gilt samþykki barnsins. Slík samskipti eru því ólögleg.
  • Lögaldur er 18 ára
    Einstaklingur þarf að vera orðinn 18 ára til að mega koma fram í kynferðislegu myndefni. Eina undantekningin á því er ef barn er orðið 15 ára þá má barnið taka myndir af sjálfu sér og birta sjálft.
  • Myndefni sem kemur frá öðru landi
    Lönd hafa mismunandi lög varðandi löglegan aldur einstaklings til að taka þátt í kynferðislegu myndefni. Myndefni sem hefur uppruna sinn frá öðrum löndum er samt ekki löglegt á Íslandi. Það er alltaf ólöglegt á Íslandi ef einstaklingur í myndefninu er undir 18 ára.
  • Ég er ekki Íslendingur
    Öll kynferðisleg hegðun sem tengist börnum er ólögleg á Íslandi. Það skiptir engu hvaðan þú kemur.

Átt þú í vanda? 

Margir líkja notkun sinni á ólöglegu myndefni við fíkn sem erfitt er að stöðva.

Afleiðingar

Margir sem brjóta af sér á netinu halda að það muni aldrei komast upp um þá en það er ekki rétt. Lögreglan á í umfangsmiklum rannsóknum sem eru sérstaklega miðaðar að því að ná fólki sem brýtur af sér á netinu.

Margir sem brjóta af sér á netinu halda að einu afleiðingarnar séu afskipti lögreglunnar og í versta falli að enda í fangelsi. En afleiðingarnar geta orðið meiri. Til dæmis getur það haft áhrif á umgengni þína við börnin þín, sambönd þín, fjárhagsstöðu og starfsmöguleika þína.

Réttarkerfið

Ein helsta afleiðing þess að brjóta af sér á netinu eru afskipti lögreglu og réttarkerfisins.

  • Fyrstu afskipti yfirvalda
    Byrja með banki á dyrnar hjá þér.
  • Tæki verða tekin
    Í fyrstu heimsókn lögreglu til þín mun hún líklega leita í húsnæði þínu og taka öll raftæki þín (síma, tölvur, myndavélar, harða diska, usb-lykla og svo framvegis). Tækin eru send í rannsókn þar sem farið er í gegnum þau af sérþjálfuðum aðilum. Rannsóknin getur tekið langan tíma og ef ólöglegt efni finnst á tækinu þá færðu það ekki aftur til baka.
  • Handtaka
    Að lokinni húsleit handtekur lögreglan þig og fer með þig í fangaklefa á lögreglustöð þar sem skýrsla verður tekin af þér. Þú átt rétt á verjanda sem má vera viðstaddur skýrslutöku hjá lögreglu. Eftir skýrslutöku færðu líklega að fara. Þú þarft svo að koma aftur til skýrslutöku síðar. Nokkrar vikur eða jafnvel mánuðir geta liðið þar á milli. Það fer eftir rannsókn málsins og hvort nýjar upplýsingar komi fram. Mælst er til þess að þú hættir allri ólöglegri hegðun ef þú hefur ekki gert það nú þegar.
  • Málalok
    Þegar lögregla fær mál til rannsóknar þá getur máli lokið á tvo vegu:

    1. Mál fellt niður
    Lögregla gæti hætt rannsókn ef ekki er grundvöllur til að halda henni áfram. Ef lögregla klárar rannsóknina og sendir málið áfram getur ákærandi fellt málið niður telji hann gögn ekki nægjanleg eða málið ólíklegt til sakfellingar.

    2. Ákæra
    Ef málið þitt er talið líklegt til sakfellingar, þá er gefin út formleg ákæra. Þá ber þér skylda að koma fyrir héraðsdóm og svara þar til saka. Eftir málsmeðferð fyrir dómstólum fellur dómur málsins. Það getur þýtt sýkna eða sakfelling. Sakfelling fyrir ólöglega kynhegðun gagnvart barni getur verið skilorðsbundinn eða óskilorðsbundinn dómur og bótagreiðsla.

Afskipti barnaverndar

Barnavernd í viðeigandi sveitarfélagi fær tilkynningu ef verið er að rannsaka þig fyrir brot tengd börnum og:

  • þú átt börn undir 18 ára.
  • þú hefur átt samskipti við önnur börn í fjölskyldunni eða í kringum þig.

Af hverju þarf barnavernd að koma að málinu?

Barnavernd hefur það hlutverk að tryggja öryggi barna og það á líka við um þín eigin börn. Barnavernd þekkir þig ekki, það eina sem hún veit er að þú hefur sýnt af þér óviðeigandi kynferðislega hegðun á netinu sem tengist börnum.

Hvað gerist?

Ef lögreglan handtekur þig þarftu að gera grein fyrir öllum börnum sem þú umgengst reglulega. Barnavernd metur síðan hættu gagnvart þeim.

Barnavernd gæti sett ákveðin skilyrði sem þú þarft að fylgja. Til dæmis:

  • Engin umgengni við börnin þín án eftirlits.
  • Þú þarft að flytja af heimili þínu ef þú býrð með börn á heimilinu.

Ef mál þitt endar í sakfellingu fyrir kynferðisbrot gagnvart barni þá þarf Barnavernd að meta hættuna gagnvart öðrum börnum.

Barnavernd gæti beðið foreldra að vinna með sér að ákveðnum þáttum til að draga úr áhættu. Mögulega þyrftir þú að sitja námskeið eða fara í ákveðna meðferð. Niðurstaða Barnaverndar um umgengni við börn fer eftir aðstæðum hverju sinni.

Taktu skrefið aðstoðar fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni.

Afleiðingar á lífsstíl og sambönd

Þegar fólk veltir fyrir sér mögulegum afleiðingum hegðunar sinnar er það oft í sambandi við handtöku og afplánun í fangelsi en ekki eins mikið um áhrif á sambönd og á aðra þætti í lífinu.

Áhrif á sambönd

Hvernig mun maka þínum, börnum og foreldrum líða ef þau komast að því að þú hafir stundað ólöglega eða óviðeigandi kynferðislega hegðun á netinu? Hvernig sérðu fyrir þér að segja fjölskyldu þinni frá því sem þú hefur verið að gera? Hvað mun þeim finnast um það ef þú skyndilega flytur af heimilinu án skýringar?

Sumir einstaklingar í þinni stöðu eru heppnir þar sem fjölskyldumeðlimir og vinir styðja þá í gegnum ferlið. Aðrir eru því miður ekki svo heppnir. Enginn getur spáð fyrir um viðbrögð annarra. Ert þú til í að taka þá áhættu eða viltu leita þér aðstoðar núna?

Fjölmiðlaumfjöllun

Það gæti verið að fjallað verði um málið þitt í fjölmiðlum. Það er mikilvægt er að vita um þann möguleika og hvaða áhrif það getur haft á þig, börnin þín, maka og aðra í fjölskyldunni.

Fjármál

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að hegðun þín hefur ekki eingöngu áhrif á þína atvinnu heldur getur það einnig haft áhrif á atvinnu annarra í fjölskyldunni.

Ef þú starfar með börnum

Ef vinnan þín felur í sér mikil samskipti við börn, til dæmis ef þú ert grunnskólakennari eða læknir, þá verður þú að hætta strax í þeirri vinnu. Í skýrslutöku hjá lögreglu er spurt um atvinnu þína og jafnvel óskað eftir að þú segir strax af þér. Einnig gætirðu þurft að upplýsa atvinnurekendur um hegðun þína.

Ef þú starfar ekki með börnum

Ef þú ert undir rannsókn lögreglu þarftu að skoða ráðningarsamninginn þinn. Í sumum ráðningarsamningum er gerð krafa um að starfsmenn upplýsi yfirmenn ef lögreglan hefur haft afskipti af þeim vegna afbrotahegðunar.

Að upplýsa yfirmenn eða atvinnurekendur um hegðun þína þýðir ekki endilega að þú missir vinnuna. Sumir atvinnurekendur gefa fólki tækifæri á því að halda áfram að starfa. Engu að síður er mikilvægt að undirbúa sig undir það að óskað verði eftir því að maður segi upp.

Atvinnuleit í framtíðinni

Ef þú ert sakfelldur fyrir hegðun þína getur það hamlað atvinnuleit þinni í framtíðinni. Einhver störf munt þú ekki geta sótt um, eins og að vinna með börnum eða öðrum viðkvæmum hópum. Þetta getur einnig haft áhrif ef þú hefur áhuga á að kenna fullorðnum.

Þegar þú sækir um ákveðin störf er óskað eftir sakavottorði. Hafðu í huga að það er ólöglegt að gefa rangar upplýsingar um sakaferil sinn.

Aðrar afleiðingar

Margir nefna einnig að neikvæð áhrif og afleiðingar hafi komið fram löngu fyrir afskipti lögreglunnar. Þar má nefna:

  • Hegðunin á netinu er farin að hafa áhrif á samskiptin við maka. Kynferðislega eða tilfinningalega.
  • Neikvæðar tilfinningar eða tilfinningadoði eftir netnotkun hefur neikvæð áhrif á samskipti, til dæmis pirringur eða stuttur þráður.
  • Þú færð ekki næga hvíld vegna tímans sem þú eyðir á netinu á hverju kvöldi. Það hefur síðan áhrif á frammistöðuna í vinnunni.

Er verið að rannsaka þig?

Ef ólögleg kynferðishegðun þín á netinu er til rannsóknar hjá lögreglu, þá er hægt að fá stuðning og ráðgjöf. Hér eru gagnlegar upplýsingar um ferlið.

Hvað veldur þessari hegðun?

Mögulega viltu reyna að skilja hvers vegna og hvernig þú byrjaðir á þessari hegðun. Það gæti verið samspil margra þátta í lífi þínu, þar með talið regluleg notkun á kynferðislegu myndefni af fullorðnum (klámi). Það gæti einnig tengst erfiðri lífsreynslu úr æsku. Einnig gæti það verið vegna reglulegra kynferðislega hugsana, hugaróra eða óviðeigandi tilfinningatengsla við ákveðið barn eða börn.

Það getur verið áskorun að ræða þessa hluti. Fyrir suma er erfitt að átta sig á ástæðunum. Að skilja hegðunina er fyrsta skrefið í því að gera jákvæðar breytingar.

Önnur óviðeigandi hegðun

Kynferðisleg hegðun á netinu getur beinst að öðru en börnum. Sumir þróa með sér aðra óviðeigandi kynferðislega hegðun, eins og að nota gróft kynferðislegt efni með fullorðnu fólki. Það getur einnig verið ólöglegt. Sumum gæti liðið eins og þeir séu háðir því að nota kynferðislegt efni á netinu. Þeir þurfa viðeigandi stuðning ef þeir ætla sér að ná stjórn á hegðun sinni á netinu og hætta ólöglegri hegðun.

Áráttu- og þráhyggjuröskun (OCD)

Sumir sem skoða kynferðislegar myndir af börnum á netinu eru að glíma við ákveðna tegund af áráttu- og þráhyggjuröskun sem felst í áleitnum og ágengum kynferðislegum hugsunum um börn. Þessir einstaklingar örvast ekki kynferðislega við þessar hugsanir, heldur valda þær mikilli vanlíðan og kvíða. Ef þetta á við þig, skaltu byrja á að ræða við lækni eða sálfræðing sem sérhæfir sig á þessu sviði. Upplýsingarnar sem hér koma fram eiga ekki við þá sem eru með áráttu- og þráhyggjuröskun. Þú getur lesið meira um áráttu- og þráhyggjuröskun á vefsíðunni geðfraedsla.is.

Hvað næst?

Það fyrsta sem þú ættir að gera er að hafa samband við Taktu skrefið sem aðstoðar fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hefur beitt kynferðisofbeldi. Hafðu samband með því að senda tölvupóst á taktuskrefid@taktuskrefid.is. Tölvupósti er svarað eins fljótt og hægt er.

Ef þú treystir þér ekki til að senda tölvupóst eða erindið er aðkallandi getur þú líka haft samband við neyðarvörð 112 í gegnum netspjall 112.

Aðstoð

Taktu skrefið

Taktu skrefið er hópur sálfræðinga sem aðstoðar fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hefur beitt kynferðisofbeldi.

Heimilisfriður

Heimilisfriður býður upp á meðferð fyrir öll sem beita ofbeldi í nánum samböndum.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins ef þú vilt tala við einhvern. Það er opið allan sólarhringinn. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Að koma í veg fyrir að beita kynferðisofbeldi

Kynlíf þarf að byggja á virðingu og góðum samskiptum þar sem langanir beggja aðila eru virtar. Að virða mörk annarra er grundvallaratriði í heilbrigðum samskiptum.