Beint í efni

Niðurlæging og vald

Hótanir, niðurlæging, yfirþyrmandi eftirlit og stjórnun með því að láta þér líða illa er allt andlegt ofbeldi. Ef einhver sem þú ert í tengslum við gerir þér þessa hluti er líklegt að það sé ofbeldi í nánu sambandi. Fólk sem beitir ofbeldi afsakar sig oft með því að kenna þolandanum um eða öðrum hlutum, eins og áfengi og fyrri sögu í stað þess að taka ábyrgð á eigin hegðun.

Afleiðingar andlegs ofbeldis sitja oft lengur í fólki en eftir líkamlegt ofbeldi. Andlegt ofbeldi skilur ekki eftir sig sjáanlega áverka þannig að það er oft erfitt að átta sig á því.

Ofbeldi í nánu sambandi fylgir oft mynstri sem er kallað ofbeldishringurinn. Fyrst safnast upp spenna, næst losnar um spennuna á á einhverjum tímapunkti í formi líkamlegrar eða andlegrar árásar og svo tekur þriðja stigið við sem eru „hveitibrauðsdagarnir”, þar sem gerandinn er fullur eftirsjár. Síðan heldur vítahringurinn áfram.

Það gæti verið andlegt ofbeldi ef viðkomandi:

 • Tekur ekki tillit til hvernig þér líður.
 • Veldur þrúgandi andrúmslofti á heimilinu.
 • Öskrar á eða hótar þér eða öðrum á heimilinu.
 • Lýgur til að rugla þig í ríminu, einnig kallað gaslýsing.
 • Gagnrýnir oft þig, fjölskyldu þína eða vini.
 • Reynir að stjórna með fýlu eða þögn.
 • Skipar þér fyrir.
 • Reiðist snögglega og að ástæðulausu.
 • Kallar þig ljótum nöfnum.
 • Áreitir þig stanslaust með skilaboðum, símhringingum eða heimsóknum.
 • Heldur þér á einhvern hátt frá vinum og fjölskyldu.

Það er alltaf betra að segja einhverjum frá hvernig þér líður. Ef þú vilt fá aðstoð getur þú haft samband við Bjarkarhlíð í Reykjavík eða Bjarmahlíð á Akureyri sem sérhæfa sig í stuðningi fyrir fullorðna við hvers konar ofbeldi. Engu máli skiptir hversu langt er síðan ofbeldið átti sér stað.

Börn og fullorðnir geta alltaf talað við einhvern hjá 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) eða haft samband við 112 gegnum síma eða netspjall.

Reynslusaga Jennýjar

Jenný segir frá ofbeldisfullu sambandi sem stóð yfir í 13 ár. Maðurinn beitti hana og börnin stjórnun og ógnunum. Hún fór frá honum þegar hún þorði ekki að vera lengur. Í dag er hún frjáls.

Reynslusaga Elínar

Elín upplifði andlegt ofbeldi í sambandi í hálft ár. Þegar hún sleit sambandinu varð hún fyrst leið að hafa ekki fattað hættumerkin fyrr en svo varð hún þakklát fyrir að hafa náð að hætta svona snemma.

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi

María

María er fötluð kona sem þarf aðstoð við ýmsar athafnir í daglegu lífi. María býr í íbúðarkjarna þar sem henni líður oftast vel. Henni finnst samt stundum að sumir starfsmenn taki ekki tillit til hennar þarfa.

Hún átti erfiðan morgun og starfsmaðurinn sem var að hjálpa henni, Björn, var ekki sáttur við hvernig hún talaði til hans. Núna segir Björn ekkert þegar María talar við hann heldur hunsar hana. Þögnin er svo þrúgandi að hún þorir ekki að biðja um hádegismat.

Er þetta ofbeldi?

Úrræði í boði

Skoða öll úrræði

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi og þolendum mansals stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Bjarmahlíð á Akureyri

Bjarmahlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Heimilisfriður

Heimilisfriður býður upp á meðferð fyrir alla sem beita ofbeldi í nánum samböndum.