Grunar þig að einhver sé beittur ofbeldi í sambandi?
Það er allt í góðu að spyrja ef þú hefur grun um ofbeldi. Þú gætir óttast að segja eitthvað vitlaust en á meðan þú heldur ró þinni, hlustar, trúir og kennir ekki þeim sem þú talar við um, er það mikill stuðningur. Flest fólk er fegið að hafa tækifæri til að tala um hvað það er að ganga í gegnum.
Manneskja sem verður fyrir ofbeldi í sambandi gæti:
- Hætt að hitta vini og fjölskyldu án augljósrar ástæðu.
- Verið áhyggjufull um að gera aðilann reiðan.
- Ítrekað afsakað neikvæða hegðun aðilans.
- Virst hrædd eða taugaóstyrk í kringum vissa aðila.
- Verið með för eða sár á líkamanum sem ekki er hægt að útskýra.
- Verið áhyggjufull yfir að verið sé að fylgjast með henni, elta hana eða stjórna henni á einhvern hátt.
Manneskja sem beitir ofbeldi gæti:
- Talað oft niður til hinnar manneskjunnar.
- Sett mikið af reglum um hvernig hin manneskjan á að hegða sér.
- Stjórnað hegðun hennar, eins og hvert hún fer, hvern hún hittir og talar við, hvernig peningum er eytt og hvernig eða hvenær hún notar símann sinn, bíl eða tölvu.
- Orðið reið þegar reglunum er ekki framfylgt.
- Hegðað sér á ógnandi hátt.
- Hótað að meiða hina manneskjuna.
- Hótað sjálfsvígi þegar hún fær ekki sínu framfylgt.