Neyðarstig - eldgos hafið á Reykjanesi

Stafrænt eftirlit á snjalltækjum

Í dag notum við netið og snjalltæki til að nálgast alls konar upplýsingar og hafa samband við annað fólk. Því miður þýðir það að auðveldara er að njósna um ferðir fólks og hvað það gerir á netinu. Á þessari síðu eru upplýsingar varðandi öryggi á netinu.

Sumar upplýsingarnar eru tæknilegar og á ensku og því er gott að hafa manneskju með tæknilega kunnáttu til að fara með þér í gegnum þær.

Ef einhver hefur sett upp stafrænt eftirlit með þér gætir þú verið í meiri hættu ef þú fjarlægir búnaðinn. Mikilvægast er að vita af því þannig að þú getir umgengst tækin á viðeigandi hátt og notað aðrar öruggar leiðir eins og hægt er.

Í stuttu máli

  • Notaðu einkaham á vafranum eða hreinsaðu vefsíður úr sögunni sem þú vilt ekki að aðrir sjái.
  • Notaðu örugg lykilorð sem aðeins þú veist um.
  • Notaðu öruggar leiðir fyrir samskipti, eins og annað netfang, önnur samskiptaforrit og annan síma sem er geymdur á öruggum stað á heimilinu eða hjá vini eða nágranna.
  • Ekki deila staðsetningu þinni á símanum, samfélagsmiðlum og öðrum öppum og biddu vini um að tagga þig ekki. Athugaðu til dæmis hvort bíllinn sem þú hefur til afnota er með app og hver er með aðgang að því.
  • Passaðu að óviðkomandi hafi ekki aðgang að persónulegum upplýsingum gegnum fjármálaforrit, dagatöl eða önnur öpp.
  • Passaðu að tölvupóstforrit séu ekki að áframsenda póstinn þinn.
  • Hafðu slökkt á Bluetooth á símanum þínum.
  • Settu öruggt lykilorð á netbeininn þinn og þráðlausa netið.

Lestu áfram til að fræðast meira um hvernig þú tryggir stafrænt öryggi þitt.

Öruggur aðgangur

  • Notaðu örugg lykilorð á aðgangana þína og tæki. Reyndu að nota orð og tölustafi sem eingöngu þú getur vitað og erfitt er að giska á. Ekki nota nöfn eða dagsetningar sem aðrir vita að eru þér mikilvægar.
  • Ef þú hefur áhyggjur af því að geta ekki munað lykilorð geturðu deilt því með einhverjum sem þú treystir.
  • Notaðu nýtt lykilorð fyrir hvern aðgang og hvert tæki. Þetta kemur í veg fyrir að einhver komist inn á alla þína miðla með eina og sama lykilorðinu. Þú getur notað lykilorðaforrit eins og 1Password eða LastPass til að hjálpa þér að hafa mismunandi lykilorð á hverjum aðgangi meðan þú þarft bara að muna og passa vel upp á eitt lykilorð.
  • Ekki vista lykilorð í vafra.
  • Breyttu öryggisspurningum þannig að eingöngu þú vitir svörin við þeim.
  • Skráðu þig inn og út í hvert sinn sem þú ferð inn á tæki, tölvupóst eða aðra miðla.
  • Notaðu alltaf tveggja-skrefa auðkenningu þegar mögulegt er.

Netbeinir (router)

Ef einhver er með stjórn á netbeininum þínum er hægt að vakta hvað þú gerir á netinu og stjórna hvaða efni er aðgengilegt. Til þess að koma í veg fyrir að einhver geti breytt stillingum á netinu þínu þarf að setja nýtt lykilorð á beininn sem er erfitt að giska á. Það er góð regla að breyta lykilorðinu á þráðlausa netinu (WiFi) reglulega, til að koma í veg fyrir að einhver geti fylgst með því hvað þú ert að gera á netinu.

Snjallsíminn

Það er auðvelt að fylgjast með ferðum þínum og gjörðum með snjallsímanum. Ef þú veist eða grunar að síminn þinn sé með njósnabúnað, farðu varlega þegar þú notar hann. Skildu símann eftir heima eða hafðu hann í öðru herbergi þegar þú átt samtal sem á að vera í trúnaði.

Fara þarf vandlega yfir símann og skoða eftirfarandi:

  • Setja skjálás á, eða breyta um, til að opna símann. Það getur verið PIN-númer, fingrafar eða andlitsskanni.
  • Skoða hvaða Apple eða Google-reikningur er skráður á símanum og hvort hann er shared eða tengdur öðrum, til dæmis fjölskyldureikningi (family account).
  • Skoða hvort verið sé að deila staðsetningu (location sharing) til dæmis á öppum eins og maps eða samfélagsmiðlum. Athugaðu að þú getur slökkt alveg á að síminn noti staðsetningu í stýrikerfinu (iPhone og Android).
  • Hreinsa vafrasögu og skoða hvernig einkahamur í vafra (private eða incognito) virkar.
  • Kanna hvort njósnahugbúnaður sé á símanum. Viðskiptavinir Hringdu, Símans og Vodafone geta snúið sér til síns farsímafélags ef þá grunar að það sé njósnabúnaður á snjallsímanum þeirra. Starfsmenn í verslunum aðstoða við að kanna málið.

Það er einnig hægt að fylgjast með staðsetningu gegnum GPS í bílnum eða með sérstökum njósnabúnaðartækjum sem gætu til dæmis verið falin í handtöskum eða gjöfum til barna. Ef það finnast merki um njósnabúnað skaltu hafa samband við Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri eða Sigurhæðir á Selfossi til að fá aðstoð áður en þú fjarlægir hann.

Tölvan

Ef einhver er með aðgang að tölvunni þinni getur viðkomandi náð í upplýsingar og notað þína reikninga. Þess vegna er best að tryggja þennan aðgang vandlega. Best er að vera með góða vírusarvörn til að koma í veg fyrir vafasöm forrit á tölvunni.

Þegar þú notar vafra í einkaham (private eða incognito-glugga) geturðu falið hvaða vefsíður þú hefur skoðað. Passaðu að bókamerki vistast ennþá og það þarf sérstaklega að eyða skjölum sem þú hleður niður. Athugaðu að njósnabúnaður á tækjum getur mögulega fylgst með í bakgrunni hvað er skoðað í einkaham. Til að vera enn öruggari er hægt að nota netið gegnum VPN-þjónustu.

Fara þarf vandlega yfir tölvuna og skoða eftirfarandi:

  • Setja eða skipta um lykilorð á tölvuna.
  • Setja upp góða vírusarvörn.
  • Eyða vafrasögu og öðrum upplýsingum sem vistaðar eru í vafra (cookies, forms, passwords, cache).
  • Skoða hvernig einkahamur í vafra virkar.
  • Kanna hvort njósnahugbúnaður sé á tölvunni.
  • Nota VPN til að koma í veg fyrir hlerun á samskiptum.

Samfélagsmiðlar

Sum forrit gætu verið að miðla viðkvæmum persónulegum upplýsingum. Helstu samfélagsmiðlar og tölvupóstur eru fyrstu staðirnir til að skoða.

Forðastu að láta tagga þig á samfélagsmiðlum og biddu þá sem þú treystir að setja aldrei neitt inn á netið sem sýnir hvar þú sért.

Það er gagnlegt að hafa aðgang að öðru spjallforriti fyrir viðkvæm samskipti við þá sem þú treystir, til dæmis Signal eða Telegram ef það hefur ekki verið notað áður.

Tölvupóstur og dagatal

Í tölvupóstinum og dagatalinu geta leynst mjög viðkvæmar upplýsingar og því þarf að huga sérstaklega að öryggi í kringum þau forrit. Gott er að hafa annað netfang sem þú deilir eingöngu með fólki sem þú treystir. Notaðu það helst bara á tölvu sem þú veist að er örugg. Best er að nota tölvupóstforrit sem nota dulkóðun (encrypted emails). Passaðu að nota ennþá gamla netfangið fyrir almenna hluti til að vekja ekki grunsemdir.

Það er auðvelt að setja upp áframsendingu á tölvupósti og deilingu á dagatali sem getur keyrt í bakgrunni án þess að gera vart við sig. Skoðaðu eftirfarandi í stillingum tölvupósts og dagatals:

  • Skipta um lykilorð. Setja upp tveggja-skrefa auðkenningu ef það er í boði.
  • Athuga endurheimtar-netfang (recovery email) fyrir gleymt lykilorð.
  • Skoða áframsendingar á tölvupósti. Það gæti bæði þurft að skoða í vefviðmóti og í forriti, til dæmis í Outlook og Outlook Web access. Ef um vinnupóst er að ræða er best að fá tölvudeildina í vinnunni til að aðstoða.
  • Skoða deilingar á dagatali.

Persónulegar upplýsingar

Það eru mörg smáforrit sem deila upplýsingum eða staðsetningum til tengdra „vina“, til dæmis heilsuöpp, leikir eins og Pokemon GO og innkaupalistaforrit eins og Google Keep.

Opnaðu hvert forrit til að:

  • Setja nýtt öruggt lykilorð.
  • Skoða persónuverndarstillingar (privacy settings). Hverju er verið að deila með hverjum? Er verið að birta staðsetningarupplýsingar?
  • Ekki sýna hvenær þú ert með kveikt á appinu („show when you’re active“) á öllum samfélagsmiðlum (Facebook, Messenger, Instagram, TikTok, LinkedIn, Telegram, Signal, WhatsApp, Snapchat, Google Hangout og fleiri).

Tryggðu að enginn nema þú hafi aðgang að netbankanum þínum eða fjármálaforritum eins og Meniga, til dæmis með því að hafa umboð fyrir þína hönd eða viti lykilorðið á rafrænu skilríki þín.

Skoðaðu öll forrit og vefsíður þar sem hægt er að versla (til dæmis Ali, eBay, Amazon, Aha og Dominos), skiptu um lykilorð og fjarlægðu vistaðar kortaupplýsingar.

Slökktu á Bluetooth til að koma í veg fyrir að hægt sé að fylgjast með staðsetningunni þinni, deila skrám eða para önnur tæki við símann, eins og heyrnartól.

Síða 112

Þessi síða reynir eftir fremsta megni að passa upp á öryggi þitt

  • Á öllum síðum um ofbeldi á vef 112 er svartur takki til hægri þar sem þú getur lokað vefsíðunni í flýti ef einhver óviðkomandi gæti séð á skjáinn þinn og í staðinn kemur vefsíða google.

Öryggi í netsamskiptum fyrir börn

Margt er að varast í netsamskiptum og mikilvægt að kenna börnunum leiðir til að koma í veg fyrir stafræn brot og leiðir til að takast á við það ef það gerist.

Stafrænt ofbeldi

Stafrænt ofbeldi er það þegar einhver notar tæki eða tækni til að fylgjast með þér, ógna þér, áreita þig eða niðurlægja þig.

Manneskja horfir á símann sinn sem sýnir ólæsileg skilaboð. Hún snýr baki í okkur svo við sjáum á símann í höndunum á henni. Mikið liðað hár sveiflast í vindinum.

Öryggisáætlun

Að útbúa öryggisáætlun er leið til að vernda öryggi þitt og barnanna þinna, hvort sem það er innan sambandsins eða ef þú ákveður að fara.

Kona dregur frá gluggatjöldum