Stafrænt eftirlit á snjalltækjum
Í dag notum við netið og snjalltæki til að nálgast alls konar upplýsingar og hafa samband við annað fólk. Því miður þýðir það að auðveldara er að njósna um ferðir fólks og hvað það gerir á netinu. Á þessari síðu eru upplýsingar varðandi öryggi á netinu.
Sumar upplýsingarnar eru tæknilegar og á ensku og því er gott að hafa manneskju með tæknilega kunnáttu til að fara með þér í gegnum þær.
Ef einhver hefur sett upp stafrænt eftirlit með þér gætir þú verið í meiri hættu ef þú fjarlægir búnaðinn. Mikilvægast er að vita af því þannig að þú getir umgengst tækin á viðeigandi hátt og notað aðrar öruggar leiðir eins og hægt er.
Í stuttu máli
- Notaðu einkaham á vafranum eða hreinsaðu vefsíður úr sögunni sem þú vilt ekki að aðrir sjái.
- Notaðu örugg lykilorð sem aðeins þú veist um.
- Notaðu öruggar leiðir fyrir samskipti, eins og annað netfang, önnur samskiptaforrit og annan síma sem er geymdur á öruggum stað á heimilinu eða hjá vini eða nágranna.
- Ekki deila staðsetningu þinni á símanum, samfélagsmiðlum og öðrum öppum og biddu vini um að tagga þig ekki.
- Passaðu að óviðkomandi hafi ekki aðgang að persónulegum upplýsingum gegnum fjármálaforrit, dagatöl eða önnur öpp.
- Passaðu að tölvupóstforrit séu ekki að áframsenda póstinn þinn.
- Hafðu slökkt á Bluetooth á símanum þínum.
- Settu öruggt lykilorð á netbeininn þinn og þráðlausa netið.
Lestu áfram til að fræðast meira um hvernig þú tryggir stafrænt öryggi þitt.
Öruggur aðgangur
- Notaðu örugg lykilorð á aðgangana þína og tæki. Reyndu að nota orð og tölustafi sem eingöngu þú getur vitað og erfitt er að giska á. Ekki nota nöfn eða dagsetningar sem aðrir vita að eru þér mikilvægar.
- Ef þú hefur áhyggjur af því að geta ekki munað lykilorð geturðu deilt því með einhverjum sem þú treystir.
- Notaðu nýtt lykilorð fyrir hvern aðgang og hvert tæki. Þetta kemur í veg fyrir að einhver komist inn á alla þína miðla með eina og sama lykilorðinu. Þú getur notað lykilorðaforrit eins og 1Password eða LastPass til að hjálpa þér að hafa mismunandi lykilorð á hverjum aðgangi meðan þú þarft bara að muna og passa vel upp á eitt lykilorð.
- Ekki vista lykilorð í vafra.
- Breyttu öryggisspurningum þannig að eingöngu þú vitir svörin við þeim.
- Skráðu þig inn og út í hvert sinn sem þú ferð inn á tæki, tölvupóst eða aðra miðla.
- Notaðu alltaf tveggja-skrefa auðkenningu þegar mögulegt er.